Eldra fólk

Rótarskemmdir

Hvað eru rótarskemmdir?
 
Rótarskemmdir eru tannskemmdir á yfirborði rótanna. Glerungur hylur tannkrónuna, en rótaryfirborðið er hulið s.k. steinungi sem er ekki jafn harður og glerungur. Steinungur verður útsettur fyrir árásum sýru frá tannskemmdabakteríum ef tannholdið hörfar frá rótaryfirborðinu. Ef tannsýkla fær að sitja óáreitt á rótaryfirborðinu geta skemmdir orðið mjög hratt og þá stundum allan hringinn í kringum tönnina. Svipað og þegar tré eru höggvin niður veikir fleyglaga skemmd ofarlega á rótinni tönnina svo að krónan getur skyndilega brotnað af. Skemmdir á rótaryfirborðinu gerast sérstaklega hratt ef munnvatnsrennsli er lítið, fæðuinntaka er tíð, tannhirða er ekki nægilega góð og flúor er af skornum skammti í munnholinu.
 
 
Munnþurrkur er algengt vandamál meðal aldraðra. Hann getur stafað af skemmdum á munnvatnskirtlum eða hömlun á starfsemi þeirra af ýmsum orsökum. Geislameðferð vegna krabbameins og ýmis lyf geta skaðað munnvatnskirtlana. Meðferð við munnþurrki miðast einkum við þrennt, þ.e. að auka seytrun munnvatns, notkun gervimunnvatns og að hætta notkun lyfja sem valda minnkuðu munnvatnsrennsli. Það síðast nefnda getur stundum orðið þungt í vöfum þar sem þau lyf sem valda munnþurrkinum geta verið sjúklingnum lífsnauðsynleg. Hins vegar kemur stundum til greina að skipta lyfjum út á móti öðrum lyfjategundum sem ekki valda jafn miklum munnþurrki. Þetta þarf að sjálfsögðu að gerast undir stjórn og eftirliti læknis.
Hvers vegna er þetta tíðara vandamál í dag en fyrir nokkrum árum síðan?
Bæði eru þeir sem komnir eru á eldri ár nú með fleiri tennur en eldra fólk áður fyrr og svo eru þeir sem eru aldraðir í dag að taka inn mikinn fjölda lyfja sem mörg hver valda munnþurrki. Fólk lifir nú lengur, þökk sé bættri lyfjagjöf og öðrum framförum læknisfræðinnar en oft fylgja þeim ýmsar hjáverkanir eða fylgikvillar.
Hvað er til ráða til að koma í veg fyrir rótarskemmdir?
Því miður hafa fáar góðar rannsóknir verið gerðar á forvarnaraðgerðum gegn rótarskemmdum, en hægt er að ímynda sér að þær leiðir sem hafa verið vandlega rannsakaðar og sannað er að virki gegn tannskemmdum á krónum tannanna, komi einnig að góðum notum á rótaryfirborði. Þetta er einkum notkun flúors og klórhexidíns. Virkni flúors gegn tannskemmdum hefur verið þaulreynd og er almenn skoðun vísindamanna á þessu sviði í dag að staðbundin (local) áhrif flúors hafi mest að segja. Áður var talið að kerfisbundin virkni (systemic) væri einnig mikilvæg hjá börnum á tannmyndunarskeiði, en sú skoðun er hratt á undanhaldi og almennt er talið að meðan nægilegur styrkur flúors sé í munnholi sé óþarft að bæta við inntöku flúors hjá börnum. Á hinn bóginn getur of hár styrkur flúors í blóði á tannmyndunarskeiði valdið flúorflekkjum (fluorosis) á þeim tönnum sem þá eru að myndast. Þegar um rótarskemmdir er að ræða er það nær undantekningalaust hjá fullorðnu fólki sem er löngu komið af tannmyndunarskeiði þannig að slíkar vangaveltur eru óþarfar í því tilliti. Styrkur flúors má því hugsanlega vera mun meiri. Rannsóknir eru nú að hefjast á notkun tannkrems sem er með mun hærri styrk flúors en áður hefur verið notað fyrir fullorðið fólk í áhættu fyrir rótarskemmdum og verður fróðlegt að vita hvort það ber betri árangur en hefðbundin styrkur flúors.
 
Klórhexidín hefur sýkladrepandi virkni og hefur notkun þess gefið góða raun þegar um óhagstæða sýklaflóru er um að ræða í munnholi. Tannskemmdir eru smitsjúkdómar sem gerast ekki án baktería og því mikilvægt að ráðast þannig að rótum vandans ef bakteríuflóra í munnholi er slík.
 
Rótarskemmdir eru fjölþátta sjúkdómur og eins og áður var nefnt hafa munnvatnsrennsli, tíðni fæðuinntöku og munnhirða einnig mikilvægum hlutverkum að gegna í þessu samspili. Ráðgjöf varðandi fæðuval og tíðni fæðuinntöku er því ekki síður mikilvæg forvörn en flúor og klórhexidín. Að lokum er góð munnhirða algjört lykilatriði til að hægt sé að koma í veg fyrir rótarskemmdir. Sjúklingar sem eru í aukinni áhættu að fá rótarskemmdir eru í mörgum tilvikum einnig með skerta færni eða getu til að annast eigin munnhirðu. Þá verða aðstandendur eða hjúkrunarfólk að sjá um munnhirðu þessara sjúklinga. Þó þetta sé oft vandasamt verk er ávinningurinn af slíkum forvörnum ómetanlegur. Það sparar sjúklingnum mikið álag og kostnað ef hægt er að halda tönnunum heilum.