Mataræði
Eru sætuefni skaðleg?
Á Íslandi eru strangar reglur sem gilda um sætuefni. Efnin eiga að vera skaðlaus og mega ekki brotna niður í skaðleg efni í líkamanum. Þau mega ekki hafa áhrif á líkamsstarfsemina og þau mega hvorki gefa aukabragð né eftirbragð. Á Íslandi eru eftirfarandi sætuefni leyfð: Sakkarín, Cyklamat, Aspartam, Sorbitol, Xylitol, Mannitol og Maltitol.
Hver er mismunur þessara sætuefna?
Þau eru tvenns konar; Annars vegar samsett efni sem innihalda engar hitaeiningar og eru gjarnan notuð í megrunarvörur. Dæmi eru Sakkarín og Cyklamat. Aspartam gefur t.d. fáar hitaeiningar og er gjarnan notað í gosdrykki. Hins vegar eru svokölluð sykuralkohól. Þau eru til í náttúrunni og innihalda hitaeiningar. Algeng efni eru Xylitol og Sorbitol og eru þau gjarnan notuð í tyggigúmmí og sælgæti.
Skemmast tennur ef ég drekk eða borða eitthvað sem inniheldur sætuefni?
Bakteríurnar í munninum breyta sykri sem við innbyrðum í sýru sem svo leysir upp glerung tanna. Þannig byrjar tannskemmd. Sætuefni sem ekki innihalda hitaeiningar breytast ekki í sýru og skemma því ekki tennur. Sykuralkohól hegða sér á mismunandi hátt; Sorbitol getur breyst í sýru, en það gerist svo hægt að það er ekki talið hafa nein áhrif. Xylitol virðist hafa bakteríuhemjandi áhrif, þannig að í raun vinnur Xylitol á móti tannskemmdum.
Er gott fyrir tennurnar að tyggja tyggigúmmí með Xylitol?
Það eru komin tyggigúmmí á markaðinn sem eru sætt bæði með Xylitol og Sorbitol. Fræðin segja að það eigi að hindra tannskemmdir. Það er þó ekki hægt að alhæfa á þann hátt, en það má fullyrða að tyggja tyggigúmmí með þessum sætuefnum, valdi ekki tannskemmdum.
Hefur neysla sætuefna einhverjar aukaverkanir?
Tilraunir hafa sýnt að óhófleg neysla sætuefna geti valdið óæskilegum einkennum en enn er ekki séð samhengi milli neyslu þessarra efna og sjúkdóma. Það skal þó nefnt að neysla í miklu magni getur valdið niðurgangi.