Unglingar
Gat í tungu
Tískan er harður húsbóndi og spyr sjaldnast um áhrif á heilsuna. Í vaxandi mæli lætur ungt fólk gata líkamann hér og þar og fyllir í götin með pinnum, hringjum eða öðru skarti. Vakin skal athygli á því að gati í tungu, vör og kinn fylgir meiri áhætta en gati í eyra þar sem sýkingarhætta er mikil í munnholi.
Munnholið hýsir fjöldann allan af bakteríum. Hreinlæti er lykilatriði þegar gatað er og að auki er lífsnauðsynlegt að afla heilsufarsupplýsinga er varða hjartagalla þar sem bakteríur geta borist frá munni í hjartalokur og valdið þar alvarlegri sýkingu (hjartaþelsbólgu). Einstaklingar með sögu um hjartagalla ættu því að forðast götun. Ef ákvörðun um götun liggur hins vegar fyrir er brýnt fyrir þá einstaklinga að leita til tannlæknis/læknis vegna fyrirbyggjandi sýklalyfjagjafar. Eins þarf sá sem ætlar að framkvæma götunina að fá að vita um stöðu mála.
Vandamál
Götun tungu er ekki sársaukafull aðgerð en blætt getur mikið úr tungunni í kjölfarið og bólgan valdið sársauka í einhverja daga. Nauðsynlegt er að halda munninum hreinum á meðan „sárið" grær en það getur tekið allt að sex vikur. Algengast er að byrjendalokkar séu úr títaníum eða læknastáli. Læknastálið getur innihaldið nikkel og er þá varsamt þeim sem eru með nikkel-ofnæmi. Hættuástand getur skapast ef tungan stokkbólgnar og lokar öndunarvegi og þarf þá sérhæfða læknishjálp hið bráðasta. Aukaverkanir eru algengari hjá t.d. sykursjúkum og blæðarar eru að bjóða hættunni heim.
Vandamál
Götun tungu er ekki sársaukafull aðgerð en blætt getur mikið úr tungunni í kjölfarið og bólgan valdið sársauka í einhverja daga. Nauðsynlegt er að halda munninum hreinum á meðan „sárið" grær en það getur tekið allt að sex vikur. Algengast er að byrjendalokkar séu úr títaníum eða læknastáli. Læknastálið getur innihaldið nikkel og er þá varsamt þeim sem eru með nikkel-ofnæmi. Hættuástand getur skapast ef tungan stokkbólgnar og lokar öndunarvegi og þarf þá sérhæfða læknishjálp hið bráðasta. Aukaverkanir eru algengari hjá t.d. sykursjúkum og blæðarar eru að bjóða hættunni heim.
Algengustu vandamálin sem upp koma tengjast þó notkun „skartsins" en sprungnar og brotnar tennur eru algengir fylgikvillar. Leita þarf aðstoðar tannlæknis ef slíkt óhapp hendir. Sumir eiga erfiðara með að tyggja/kyngja fæðu, aðrir finna fyrir talörðugleikum og enn aðrir mikilli munnvatnsframleiðslu. Tannholdið sýnir einnig ákveðin ummerki, en það hörfar gjarnan upp/niður með tönninni ef skartið nuddast stöðugt við það.
Umhirða
Þeir sem staðráðnir eru í að skreyta munnholið geta minnkað líkur á fylgikvillum með því að huga vel að munnhirðu, velja skart úr plastefnum í stað málma og hvíla munninn reglulega, t.d. með því að sofa ekki með „skartið".
Heilræði
- Mikilvægt er að láta lokkinn í friði meðan sárið grær
- Skolið sárið með sótthreinsivökva (Listerine) eða saltvatni (2 mínútur í senn) á 4 klukkustunda fresti og alltaf eftir neyslu matar
- Til að draga úr bólgu á stungustað er mælt með kælingu (sjúga klaka á klukkustundarfresti í 6 - 8 klukkustundir)
- Ef blæðing stoppar ekki þá á að þrýsta á sárið með sótthreinsaðri grisju í hálftíma. Ef blæðing heldur áfram þarf að leita læknishjálpar
- Ef tungan stokkbólgnar og veldur kyngingar- eða öndunarörðugleikum leitið þá læknishjálpar hið bráðasta
- Ef merki eru um sýkingu leitið þá læknishjálpar.
Samþykki foreldra/forráðamanna verður að liggja fyrir áður en ,,götun" er framkvæmd hjá ungmennum undir 18 ára aldri.
Hólmfríður Guðmundsdóttir
tannlæknir
Verkefnisstjóri tannverndar hjá Lýðheilsustöð
tannlæknir
Verkefnisstjóri tannverndar hjá Lýðheilsustöð
Upplýsingar fengnar af heimasíðu Landlæknisembættisins