Verkir

Tannholdssjúkdómar

Hvernig veit ég hvort ég er með tannholdssjúkdóm?
Það getur verið erfitt að vita hvort maður hefur tannholdssjúkdóma eða ekki. Tannholdsbólga er sjúkdómur sem fer afar hljóðlega og fólk finnur yfirleitt ekki nein einkenni, fyrr en í óefni er komið og tennur farnar að losna. Oft er fyrsta merki um tannholdsbólgur blæðing úr tannholdi við burstun eða hreinsunar milli tannanna. Ef mikil bólga er í tannholdi getur einnig blætt þegar maður borðar, en yfirleitt blæðir ekki án áreitis. Tannholdsbólgur lýsa sér í dekkra tannholdi næst tönnunum. Einnig verður tannholdið þrútið. Auðveldast er að fá tannlækninn sinn til að meta og greina hvort um tannholdsbólgur er að ræða.
 
Hvernig lítur heilbrigt tannhold út?
Heilbrigt tannhold er fölbleikt á lit og yfirborð þess er matt. Það liggur upp að tönnunum og fyllir upp í bilin á milli þeirra. Úr heilbrigðu tannholdi á ekki að blæða; hvorki við tannburstun né notkun tannþráðs.

Einkenni tannvegsbólgu geta verið eftirfarandi
- Blæðing
- Tannholdið hörfar þannig að tennurnar virka stærri.
- Tennurnar færast til og bil geta myndast á milli þeirra
- Tennurnar losna
- Tannsteinn hleðst upp
- Andremma

Hver er ástæðan fyrir tannholdsbólgum?
Það eru bakteríur í munnholi sem valda þessum bólgum. Ef tennur eru ekki hreinar, mynda þessar bakteríur skán á tönnum, niður við tannholdið. Við köllum þessa skán tannsýklu. Tannsýklan hefur oftast sama lit og tennurnar og því oft erfitt að sjá hana. Til er sérstakur litur sem litar tannsýkluna og er hægt að nálgast hann á töfluformi í lyfjabúðum. Ef tannsýklan fær að liggja á tönnunum í nokkra daga, myndast allataf bólga í tannholdinu. Það er mjög einstaklingsbundið hve mikil bólgan verður.
Ónæmiskerfi fólks er misvel undirbúið til að glíma við þær bakteríur sem haga sér svona í munni. Það þarf ekki að vera að ónæmiskerfi einstaklingsins sé verra; það ræður einfaldlega ekki eins vel við þessar bakteríur.

Getur maður misst tennurnar ef bólga er í tannholdinu?
Ef tannholdsbólgan er aðeins í yfirborðinu og er ekki langvarandi, gengur hún oftast nær til baka þegar tannhirðan er bætt. Fái tannholdsbólgan lengri tíma og tannhirðan stendur í stað, teygir hún sig lengra niður í tannveginn og veldur því á löngum tíma að festan í munninum minnkar með þeim afleiðingum að tennurnar losna. Talið er að um 10% fólks fái slæmar tannholdsbólgur með þeim afleiðingum að tannfestan minnki og tennur losni.

Meðferð
Einfaldasta meðferðin við tannholdsbólgu er að halda tönnum og umhverfi þeirra hreinu. Þegar um tannvegsbólgu er að ræða er meðhöndlun hjá tannlækni nauðsynleg samfara bættri munnhirðu. Það er því samvinna tannlæknis og sjúklings sem þarf til. Ef tannvegsbólga er látin óáreitt er mikil hætta á að tennurnar hreinlega
tapist! Það er ástand sem enginn sættir sig við.

Meðganga kvenna
Á seinni hluta meðgöngu er tannholdsbólga þekkt vandamál sem oft fylgir þeim hormónabreytingum sem eiga sér stað. Einnig getur breytt mataræði og munnhirða haft áhrif þar á. Sjá nánar Tannvernd fyrir barnshafandi konur í efnisflokki hér ofar á skjánum.

Reykingar
Reykingar eru stór áhættuþáttur fyrir tannholdssjúkdóma. Einnig er erfiðara að meðhöndla tannholdssjúkdóma hjá reykingafólki því reykingar draga úr endurnýjunarmætti slímhúðar munnholsins auk þess sem varnir líkamans gegn sýkingum minnka.

Hvernig höldum við tönnum og tannholdi heilbrigðu?
Það sem öllu máli skiptir er góð munnhirða og reglulegt eftirlit hjá tannlækni.

Reglulegt eftirlit
Það er mjög erfitt fyrir þig að greina á milli tannholdsbólgu og tannvegsbólgu við þínar eigin tennur. Því er reglulegt eftirlit með tannholdi hjá tannlækni nauðsynlegt, ekki síður en eftirlit með tönnunum sjálfum.

Góð munnhirða
Besta meðferðin við tannholdsbólgu er að ráðast gegn henni á byrjunarstigi með vandaðri tannhirðu. Bursta skal tennurnar að minnsta kosti tvisvar á dag og nota tannþráð, tannstöngla eða millibursta til hreinsunar milli tanna.