Verkir

Tannskemmdir

Tannskemmd myndast vegna þess að í munnholi allra eru milljónir baktería sem breyta sykri í sýru. Við það leysist glerungurinn upp. Þetta ferli hefst aðeins nokkrum mínútum eftir að við neytum fæðu sem inniheldur sykur. Það sem hefur áhrif á hversu mikið leysist upp, er meðal annars magn sykurs sem neytt er, hversu límkenndur maturinn er og hve vel hann loðir við tennurnar og hversu mikið magn af bakteríum er á tönninni. Mikið magn glerungs getur leyst upp áður en það verður sýnilegt. Tíminn milli máltíða nýtist við s.k. endurkölkun glerungsins, en þá ganga steinefni úr munnvatninu aftur inn í glerunginn að einhverju leyti. Þannig myndast jafnvægi. Þess vegna er mikilvægt að raska ekki þessu jafnvægi með því t.d. að borða oft á milli mála - þá nær endurkölkunin ekki að halda í við úrkölkunina og tannskemmd myndast.
 
Hvað getum við gert til að forðast tannskemmdir?
,,Það skemmist ei tönn sem er skínandi hrein" var sungið um árið og það eru orð að sönnu. Ef engar bakteríur eru á tönninni, þá skemmist hún ekki. Svo hreinar geta tennurnar sjaldnast orðið, hversu vel sem burstað er. Það skiptir þó gífurlega miklu máli hversu hrein tönnin er; því hreinni, því minni hætta á tannskemmdum. Með því að borða ekki milli mála framkallar þú færri ,,sýruárásir´´ á tennur þínar og dregur um leið úr hættu á tannskemmdum. Þetta á sérstaklega við um sætindi og því hefur foreldrum gjarnan verið ráðlagt að safna sælgæti vikunnar á einn dag - oft nefnt laugardagsnammi.
 
Flúorið ver
Þegar sætinda hefur verið neytt, fellur sýrustigið í munnholi og steinefni ganga úr glernungnum (úrkölkun). Það tekur ákveðinn tíma að ná sýrustiginu upp aftur og þá hefst endurkölkun. Úrkölkunin gengur mun hægar ef tönnin hefur flúor í glerungnum. Því er einnig mikilvægt að nota flúortannkrem, flúorskol o.þ.h. Það dugar þó skammt ef tennurnar eru ekki hreinsaðar vel og sætinda er neytt í tíma og ótíma.
 
Er nauðsynlegt að bora?
Tannlæknirinn borar burt skemmt tannbein og glerung og setur þess í stað fyllingarefni. Þegar skemmd er komin inn í tannbein er nauðsynlegt að beita bor. Ef skemmdin er aðeins yst í glerungnum getur nægt að meðhöndla hana með sterku flúorlakki. Það fer þó eftir ýmsum öðrum þáttum, svo sem hvar skemmdin er staðsett í tönninni, aldri sjúklings, munnhirðu o.fl.
 
Á ekki að setja fyllingu um leið og skemmdin uppgötvast?
Best er að geta meðhöndlað skemmd án þess að setja fyllingu. Smá úrkölkun eftir sýruárás þarf alltaf fyllingu, en oft er nóg að nota flúor og beita fræðslu um tannhirðu og fleira. Þegar skemmdin er orðin stærri; þ.e. komin inn í tannbeinið, verður að hreinsa hana burt og fylla. Oftast verður tannlæknirinn að nota röntgenmyndir til að sjá slíkar skemmdir. Röntgenmyndir eru nauðsynlegar til að ákvarða hvort meðhöndla eigi tönnina eða ekki.
 
Hvað veldur tannverkjum?
Algengasta ástæða tannverkja er sýking í tauginni af völdum djúprar tannskemmdar. Einnig fá menn verki ef taugin er dauð og bólgan í rótarendanum segir til sín. Ástæða þess að taugin deyr er oftast tannskemmd eða áverki (högg) sem tönnin fær. Stundum fær fólk tannpínu vegna tannholdssjúkdóma. Í einstaka tilfellum getur kinnholubólga valdið verkjum á jaxlasvæði í efri góm. Fylling sem er of há getur einnig valdið tannverk.
 
Hvað veldur kuli í tönnum?
Fyrir tannkuli geta verið margar ástæður. Flestir finna fyrir tannkuli þegar eitthvað kalt er borðað, s.s. ís. Sumir þurfa þó minna til að finna fyrir kuli; t.d. við innöndun á köldu lofti. Þetta getur haft sínar eðlilegu skýringar, en þarna ná glerungur og tannbein ekki að vernda taugina fyrir utanaðkomandi áreiti. Þetta getur verið mjög einstaklingsbundið. Margir telja að tannkrem, sem vinna á viðkvæmni tanna, hjálpi. Viðkvæmni tanna getur einnig verið vegna berra tannhálsa. Tannhálsarnir hafa ekki glerung til hlífðar. Með tímanum geta þeir komið upp úr tannholdinu og standa þá berskjaldaðir gegn hvers konar áreiti. Oft getur meðferð hjá tannlækni hjálpað í þessum tilvikum. Sumir verða viðkvæmir við neyslu súrra drykkja eða ávaxta. Skýringin á því er sýran í ávöxtunum, sem ætir yfirborð tannanna og þá sérstaklega tannhálsanna. Ekki má gleyma því að tannskemmdir gera oft fyrst vart við sig með tannkuli.
 
Hvað er hægt að gera við tannkuli?
Fyrst er að finna út af hverju tannkulið stafar. Flúormeðhöndlun getur verið gagnleg, en flúor styrkir tannbeinið og minnkar viðkvæmni þess. Dagleg flúorskolun eða tuggutöflur í viðbót við notkun flúortannkrems geta komið að gagni. Tannlæknirinn þarf stundum að nota aðrar aðferðir eins og að gera fyllingar á tannhálsasvæði, til að minnka viðkvæmnina. Tannkrem sem eru framleidd til að minnka viðkvæmni tanna geta einnig hjálpað.
 
Hvaða tannfylljngarefni getur tannlæknirinn notað í stað skemmdarinnar sem fjarlægð er?
Það eru í raun tvær tegundir meðferða til að fylla upp í skemmda tönn. Annars vegar eru sett mjúk efni sem stífna eftir ákveðinn tíma. Þau efni kallast fyllingarefni og dæmi um þau eru silfurblendi, plastblendi og fleiri. Hinn möguleikinn er sá að taka mát af tönninni og búa til steypta fyllingu, til dæmis úr gulli, postulíni eða öðrum efnum. Þær fyllingar eru búnar til á tannsmíðaverkstæði og síðan límdar upp í annarri heimsókn hjá tannlækni