25.03.2014

Fyrirhuguð breyting á starfsaldursmörkum heilbrigðisstarfsfólks

 Heilbrigðisstarfsmönnum verður heimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstöð til 75 ára aldurs, með möguleika á framlengingu, samkvæmt frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Þá munu áfengis- og vímefnaráðgjafar endurheimta starfsheiti sitt verði frumvarpið að lögum.

Þann 1. janúar 2013 tóku gildi ein lög um heilbrigðisstarfsmenn og sérlög um einstakar starfsstéttir féllu úr gildi. Samkvæmt læknalögum gátu læknar starfað sjálfstætt til 75 ára aldurs og eftir það sótt um undanþágu til þess að starfa áfram, eitt ár í senn. Þetta breyttist með lögum um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem eitt ákvæði gildir um alla heilbrigðisstarfsmenn og kveður á um heilbrigðisstarfsmönnum sé óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir sjötugt. Möguleiki er þó á framlengingu en aðeins til tveggja ára í senn samkvæmt undanþágu frá Embætti landlæknis. Slíka heimild er þó ekki unnt að fá oftar en þrisvar, þ.e. til 76 ára aldurs.