Tannverndarvika og alþjóðlegur tannverndardagur – 20. mars
Tannlæknafélag Íslands stendur fyrir Tannverndarviku dagana 17.–21. mars 2025 með skilaboðum til landsmanna um mikilvægi góðrar tannheilsu. Tannverndarvika er haldin í tengslum við Alþjóðlegan tannverndardag, sem er 20. mars ár hvert.
Á Alþjóðlegum tannverndardegi og í Tannverndarviku verður lögð áhersla á heilbrigði munns og tanna. Jákvæðum skilaboðum, þar sem allir eru hvattir til að huga að eigin munnheilsu verður deilt á samfélagsmiðlum.
Í ár er áhersla lögð á tengsl munnheilsu og andlegrar vellíðanar. Munnur, líkami og hugur eru samtengd, og með því að huga að munnheilsunni getur einstaklingur stuðlað að betri almennri og andlegri heilsu. Nánari upplýsingar um alþjóðlegan tannverndardag og þema ársins "A happy mouth is a happy mind" má nálgast á vefsíðu World Oral Health Day.
Stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á heilsuvera.is.
Þá eru fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur hvött til að nýta sér Tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Einnig eru stjórnendur verslana hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru í Tannverndarviku og afnema á sama tíma afsláttarkjör af sælgæti og súrum drykkjum.