Lög Tannlæknafélags Íslands

Lög Tannlæknafélags Íslands
 
1. gr.
Félagið heitir Tannlæknafélag Íslands, skammstafað TFÍ. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 
2. gr.
Markmið og tilgangur félagsins er:
-  Að auka lífsgæði almennings með bættri tannheilsu þjóðarinnar.
-  Að upplýsa og fræða almenning og heilbrigðisyfirvöld um tannlækningar og tannheilsu.
-  Að tryggja tannlæknum og stoðstéttum tannlækna aðgang að fræðslu, nýjungum og menntun í hæsta gæðaflokki.
-  Að efla samvinnu og einingu á meðal íslenskra tannlækna og gæta réttinda þeirra og hagsmuna í hvívetna.
-  Að efla og tryggja stöðu tannlækna og tannlækninga.
-  Að koma fram fyrir hönd tannlækna og aðstoða tannlækna við að veita sem bestu þjónustu.
-  Að auðvelda almenningi aðgengi að félagsmönnum og upplýsingum um tannlækna og tannlækningar.
-  Að halda úti heimasíðu og gefa út blað helgað tannlækningum.
-  Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi tannlækna og efla félagsvitund og kynni félagsmanna.
-  Að stuðla að vísindalegri umræðu og rannsóknum innan félagsins og meðal tannlækna.
  
3. gr.
Eftirtaldar deildir starfa innan félagsins :
-  Tannlæknafélag Norðurlands
-  Tannréttingafélag Íslands
-  Félag sérmenntaðra tannlækna
-  Félag íslenskra barnatannlækna
-  Félag um réttartannlæknisfræði
-  Félag um munnheilsu fólks með sérþarfir
-  Félag munn- og kjálkaskurðlækna
 
4. gr.
Félagsmenn geta þeir einir orðið, sem lokið hafa kandidatsprófi í tannlækningum frá tannlæknadeild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eða hafa lokið prófi í tannlækningum frá viðurkenndum háskólum, sem er sambærilegt við nám og próf við tannlæknadeild Háskóla Íslands og hafa löggilt starfsleyfi landlæknis.
 
Erlendir tannlæknar, sem hlotið hafa tímabundið starfsleyfi landlæknis, geta gerst aukameðlimir á meðan þeir starfa hér á landi. Hafa þeir rétt til fundarsetu án atkvæðisréttar.
 
Sá, sem æskir inngöngu í félagið, skal kynna sér lög þess og siðareglur og gangast undir þau með undirskrift sinni. Telst hann með því fullgildur félagsmaður en leita skal endanlegrar staðfestingar næsta stjórnarfundar fyrir félagsaðildinni. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til TFÍ. Úrsögn skal miðast við fyrsta dag þarnæsta mánaðar eftir dagsetningu tilkynningar um úrsögn.
 
 
5. gr.
Félagsfundir skulu haldnir reglulega á tímabilinu október – maí, eða innan 14 daga frá ósk a.m.k. 10% skuldlausra atkvæðisbærra félaga þar um. Boðað skal til félagsfunda skriflega eða á annan sambærilegan hátt a.m.k. með viku fyrirvara og dagskrár getið í fundarboði.
 
Félagsfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Stjórn félagsins ber ábyrgð á félagsfundum en formaður boðar fundi og ákveður dagskrá í samráði við stjórn.
 
Aldrei má á félagsfundi leiða til lykta mál sem ekki er getið í fundarboði. Hægt er að koma máli á dagskrá félagsfundar með því að tilkynna það stjórn félagsins og skal þá setja málið á dagskrá næsta félagsfundar eða innan fimm vikna frá því að erindið barst.
Fundargerð síðasta félagsfundar skal send út til félagsmanna fyrir næsta boðaða félagsfund.
 
6. gr.
Stjórn félagsins skipa sjö menn kosnir á aðalfundi: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Kjörið er til tveggja ára í senn. Stjórn skipti með sér verkum.
 
Hverfi formaður frá störfum áður en kjörtímabili hans lýkur, tekur varaformaður sæti hans til næsta fundar.
 
Stjórn félagsins fer með allar ákvarðanir milli aðalfunda og ber ábyrgð á framkvæmd þeirra eins og aðalfundasamþykkta sem og samþykkta félagsfunda. Stjórn félagsins tekur ákvarðanir sem krefjast tafarlausrar úrlausnar en leggja skal allar slíkar meiriháttar ákvarðanir undir næsta félagsfund. Stjórn er heimilt að láta fara fram póstkosningu eða rafræna kosningu um þau mál er stjórn telur mikilvæg eða til að tryggja jafnræði félaga til ákvarðanatöku og fá sem réttasta mynd af vilja félagsmanna. Stjórn ræður framkvæmdastjóra og ákvarðar honum starfskjör og starfslýsingu. Stjórn félagsins kemur fram fyrir hönd félagsmanna og formaður fyrir hönd stjórnar.
 
Stjórn skal halda sérstaka fundargerðarbók sem vera má á rafrænu formi. Formaður boðar stjórnarfundi og ákveður dagskrá í samráði við stjórn og framkvæmdastjóra.
 
Tveir stjórnarmenn geta farið fram á stjórnarfund með dagskrá. Stjórnarfundi skal boða með minnst fjögurra sólarhringa fyrirvara, en með minni fyrirvara ef allir stjórnarmenn eru því samþykkir.
 
Formaður stýrir stjórnarfundum og varaformaður í forföllum hans. Stjórnarfundur telst ályktunarfær sé löglega til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns (varaformanns í forföllum formanns) úrslitum. 
  
7.gr.
Aðalfundur skal haldinn á tímabilinu 15. september til 15. nóvember ár hvert. Aðalfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í félaginu.
Félagsfundur getur þó breytt aðalfundartíma, ef sérstaklega stendur á. Til aðalfundar skal boða skriflega eða á annan sambærilegan jafntryggan hátt með 3ja vikna fyrirvara. Tillögur sem leggja skal fyrir aðalfund skulu berast stjórn félagsins minnst fjórtán dögum fyrir boðaða dagsetningu aðalfundar. Endanleg dagskrá aðalfundar skal send út sjö dögum fyrir auglýstan aðalfund.  Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
 
Á dagskrá aðalfundar skal vera auk kjörs fundarstjóra:
-          Inntaka nýrra félaga.
-          Skýrsla formanns.
-          Skýrsla stjórnar og nefnda félagsins.
-          Endurskoðaðir reikningar kynntir og lagðir fram.
-          Lagabreytingar.
-          Kosningar formanns, annarra stjórnarmanna, skoðunarmanna og nefndamanna.
-          Ákvörðun um árgjald.
-          Önnur mál löglega fram borin.
 
Framboð til formanns, stjórnar, skoðunarmanna og nefnda skal berast stjórn (kjörnefnd) 7 dögum fyrir aðalfund félagsins.  Kosningar skulu vera skriflegar í hverju tilviki, sé þess óskað.
 
Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn.  Formann má endurkjósa tvö kjörtímabil í röð hið mesta. Fái enginn meira en helming greiddra atkvæða í formannskjöri, skal kosið aftur um þá tvo er flest atkvæði hlutu. Þrír stjórnarmenn eru kjörnir árlega til tveggja ára. Hlutkesti ræður, ef atkvæði eru jöfn.
 
Aðalfundur getur sett stjórnina af í heild með vantrauststillögu og þarf 2/3 atkvæða fundarmanna til að samþykkja hana. Fari svo skal kjósa formann og stjórn að nýju, samkvæmt reglum um kjör stjórnar. Kosnir skulu tveir skoðunarmenn og einn til vara til eins árs í senn. Á aðalfundi skal kosið í fastar nefndir, sem starfa á vegum félagsins. Stjórn getur skipað félagsmenn í nefndir og ráð sem ekki er getið í aðalfundarboði og til tímabundinna starfa fyrir félagið.
 
Félagið getur á aðalfundi kosið heiðursfélaga samkvæmt tillögu stjórnar og þarf 2/3 atkvæða til samþykktar þess.
Ekkert mál má taka til afgreiðslu á aðalfundi nema það hafi verið tilkynnt í aðalfundarboði.
Telji stjórn það nauðsynlegt, eða komi fram ósk um það frá ¼ atkvæðisbærra, skuldlausra félagsmanna, skal boðað til aukaaðalfundar á sama hátt og til aðalfundar.
 
8. gr.
Árgjald félagsins skal ákveðið á aðalfundi að fenginni tillögu stjórnar. Árgjaldið greiðist í þrennu lagi með gjalddögum: 1. febrúar, 1. maí og 1. ágúst. Eindagi er 20 dögum eftir hvern gjalddaga. Hafi félagsmaður ekki gert skil á eindaga hverju sinni reiknast dráttarvextir á greiðsluna.
 
Geri félagsmaður ekki full skil ári eftir fyrsta eindaga telst hann ekki félagi fyrr en hann hefur greitt skuld sína að fullu. Nýútskrifaðir félagar, sem ganga í félagið eftir 1. júní ár hvert greiði ekkert árgjald það ár og hið næsta. Árið sem félagsmaður verður sjötíu ára fellur árgjald hans niður.
 
Heiðursfélagar greiða ekki árgjöld. Það rýrir á engan hátt réttindi eða skyldur þeirra félagsmanna TFÍ sem ekki greiða fullt árgjald til félagsins.
 
Félagi í TFÍ greiðir 1/2 árgjald við eftirfarandi aðstæður, ef félagi óskar þess:
1.      Félagi er frá störfum lengur en fjóra mánuði
2.      Félagi starfar ekki að tannlækningum
3.      Námsdvöl erlendis, minnst 4 mánuðir samfellt
4.      Fæðingarorlof lengur en fjóra mánuði
 
-          Félagi sem starfar erlendis greiðir ¼ félagsgjald.
-          Félagi í sérnámi erlendis getur óskað eftir niðurfellingu á félagsgjaldi á meðan á námi stendur
 
Stjórn félagsins er heimilt að fella niður árgjöld félaga að hluta eða að öllu leyti séu til þess sérstakar ástæður
 
9. gr.
Félagið samþykkir Codex ethicus fyrir stéttina og er sérhver félagsmaður skyldur til að fylgja ákvæðum hans. Breytingar á Codex er einungis hægt að gera á aðalfundi með samþykki 2/3 atkvæða fundarmanna enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.
 
10. gr.
Gerðardómur skal skipaður fimm síðustu formönnum félagsins. Þegar nýr maður tekur sæti skal sá er lengst hefur setið víkja. Gerðardómur sker úr öllum deilum er rísa kunna meðal félagsmanna út af lögum félagsins, Codex ethicus eða öðrum deilum, er snerta tannlæknafélagið sérstaklega. Dæmi gerðardómur félaga brotlega við lög félagsins eða Codex ethicus ákveður dómurinn refsingu. Refsing getur verið áminning, vítur, fjársektir allt að fimmföldu árgjaldi TFÍ eða brottrekstur úr félaginu.
 
11. gr.
Breytingar á lögum þessum má gera á aðalfundi ef 2/3 fundarmanna samþykkja enda hafi þær verið boðaðar í aðalfundarboði.
 
12. gr.
Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún sæta sömu meðferð og tillaga að lagabreytingu, sbr. 11. grein. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins. Allir félagsmenn hafa jafnan atkvæðisrétt ef slík tillaga kemur fram.
 
 
Lög þessi öðlast þegar gildi. Eru þar með eldri lög úr gildi numin.
Samþykkt á aðalfundi TFÍ 1. nóvember 2019.