Fullorðnir

Gervitennur

Gervitennur koma í stað líkamstanna en ekki má búast við að þær þjóni á nákvæmlega sama hátt. Til allrar hamingju venjast flestir gervitönnum og því meir sem þær eru notadar í byrjun þeim mun fljótar venst fólk þeim og nær því takmarki að gleyma þessum aðskotahlut sem þær óneitanlega eru. Árangur er ekkert síður undir einstaklingnum sjálfum kominn en þekkingu og leikni tannlæknisins og mikilvægt er að mæta vandanum með jákvæðu hugarfari

 

Notkun gervitanna
Munnurinn kann að þarfnast hvíldar hluta úr sólarhringnum, einkum hjá því fólki sem bítur fast saman eða gnístir tönnum. Sumir gera þetta tímabundið, aðrir að staðaldri að nóttu eða degi, og gefur auga leið að þetta veldur verulegu álagi á slímhúð og gómhryggi og eykur rýrnun þeirra.

Mega ekki liggja þurrar
Ýmsir telja heppilegra að sofa án gervitanna, a.m.k. án annars gómsins, venjulega neðra góms, svo að bitálag minnki. Gervitennur mega ekki liggja þurrar, við það geta þær orpist. Því ber að leggja þær í vatn séu þær ekki notaðar um lengri eða skemmri tíma.

Tímabundin vandamál
Þegar hafin er notkun nýrra gervitanna finnst mörgum þær vera lausar og velta og jafnvel sporðreisast þegar tuggið er. Fæðan kann að festast við tennurnar eða komast undir þær. Stundum eykst munnvatnsrennsli. Hversu fyrirferðarlitlar sem þær eru virðast þær yfirþyrmandi stórar. Fólki finnst þröngt um tungu og klígjutilfinning er algeng. Allt þetta hverfur eftir því sem notkun tannanna venst. Hreyfist eða losni gervitennur við tal eða tyggingu getur það bent til þess að viðkomandi eigi ólært að halda þeim í skefjum með kinnum og tungu.

Tal
Nýjar gervitennur geta torveldað framburð vissra hljóða í tali, jafnvel hjá fólki sem haft hefur gervitennur áður. Oftast sigrast menn tiltölulega fljótt á þessum vanda. Oft gefst vel að lesa upphátt og leggja áherslu á þau hljóð sem reynast erfiðust.

Útlit
Þegar þú færð gervitennur í fyrsta sinn kann þér að virðast andlitsdrættir nokkuð ankannalegir. Fljótlega aðlagast vöðvar vara og kinna þó breyttum aðstæðum og andlitið færist þá aftur í eðlilegt horf. Margir veita ekki athygli smáatriðum í andliti fyrr en þeir fá gervitennur. Þá verða menn oft sérlega viðkvæmir gagnvart slíku, þeir taka þá fyrst eftir því að annað munnvikið drjúpir e.t.v. örlítið meira en hitt, brosið sýnir hugsanlega meira af tönnum öðrum megin o.s.frv. Oftast hefur þetta verið til staðar áður en gervitennurnar komu til en andlitið hefur ekki sætt eins mikilli gagnrýni. Stundum telur fólk að ekki hafi tekist að ná eðlilegu útliti með nýjum tönnum. Sumir ætlast til þess að tannlæknir leiðrétti andlitsdrætti sem ekki er mögulegt að breyta með gervitönnum. Oft er hægt að lagfæra vissa drætti og draga má úr áberandi skekkjum. Fyllingu í andliti má ná að vissu marki en menn skyldu hafa í huga ao sum atriði eru svo einkennandi fyrir persónuleika manna að varhugavert er að breyta þeim og alls ekki víst að fólk geri sér þess ljósa grein sjálft.

Reglubundið eftirlit tannlæknis er mikilvægt
Þótt gervitennur haldi upprunalegri lögun tiltölulega vel þá breytist munnurinn hægt en stöðugt. Gómhryggirnir sem gervitennur hvíla á rýrna svo að kjálkarnir nálgast hvor annan æ meir. Þetta getur valdið því að tennur verði óstöðugri, tygging erfiðari og hrukkur og önnur ellimörk meira áberandi. Til þess að koma að nokkru í veg fyrir þetta eða leiðrétta er mikilvægt að tannilæknir hafi reglubundið eftirlit með gervitönnum.

Tygging
Í byrjun getur verið vandkvæðum bundið að neyta matar með gervitönnum. Meðan þetta lærist ætti að velja auðtuggna fæðu, hafa bitana smáa, tyggja hægt í báðum hliðum munnsins samtímis og alls ekki með framtönnunum. Forðast ber límkennda, seiga og mjög harða fæðu þar til sigrast hefur verið á því sem auðveldara er. Fæstir geta bitið í sundur fæðu með framtönnum í byrjun og margir aldrei. Nota skal hníf og gaffal eða brjóta fæðuna með fingrum. Smám saman má svo reyna að bíta heppilegar fæðutegundir sundur á forjaxlasvæðinu öðru hvorum megin. Varist þó að toga í fæðuna um leið.

Aðlögun slímhúðar
Það tekur slimhúð munnsins nokkrar vikur að venjast og aðlagast því álagi sem hún verður fyrir af hálfu gervitanna svipað og hendur óvanar erfiði þurfa aðlögunartímabil við aukið álag. Leita skal ráða tannlæknis ef aumir blettir eða særindi hverfa ekki fljótlega.

Hve oft þarf að endurnýja gervitennur?
Séu gervitennur settar í munninn um leið og síðustu líkamstennur voru fjarlægðar getur reynst nauðsynlegt að framkvæma bráðaðirgðafóðrun að fáum vikum liðnum. Endanleg fóðrun eða umsteyping er svo venjulega framkvæmd eftir 3-6 mánuði. Í stöku tilvikum getur verið nauðsynlegt að gera nýjar gervitennur í stað fóðrunar. Ómögulegt er að setja neinar reglur um það hvenær breyta þarf gervitönnum til aðlögunar breyttu ástandi munnsins eða hvenær nýrra gervitanna er þörf því að rýrnun gómhryggjanna er ákaflega mismunandi hröð. Sumir geta notað sömu gervitennur árum saman án þess að nokkrar verulegar breytingar eigi sár stað. Hjá öðrum er lagfæring eða endurnýjun nauðsynleg eftir skamman tíma, jafnvel þótt gervitennur hafi verið gerðar mörgum manuðum eftir að líkamstennur voru fjarlægðar. Gætið að því að breytingar í munni geta átt sér stað án þess að viðkomandi taki eftir og þó verið það miklar að lagfæringa eða endurnýjunar sé þörf. Reglubundið árlegt eftirlit er því nauðsynlegt.

Á líkamstennur sest tannsýkla (bakteríu- -og matarleifaskánir) sem getur valdið tannskemmdum og tannholdsbólgum. Tannsýkla sest líka á gervitennur, einkum innri fleti þeirra, þá fleti sem eru í snertingu við gómhryggi og gómhvelfingu. 2) Tannsýkla getur valdið óbragði og andremmu. Hún veldur oft ertingu og bólgu í slímhúð undir gervitönnum sem breiðst getur út í munnvik og tungu. Langvarandi bólgur af þessu tagi leiða oft af sér ofvöxt í slímhúð munnsins og þarf þá einatt að grípa til skurðaðgerða til þess að koma munninum í heilbrigt ástand á ný. Þess vegna er nauðsynlegt að halda gervitönnum tandurhreinum ekkert síður en líkamstönnum. Við sjálfa hreinsunina á fyrst og fremst að nota bursta, þó ekki of harðan. Við burstun má nota sérstök hreinsiefni ætluð gervitönnum eða venjulega handsápu sem er einna best. Gervitennur skal bursta rækilega að minnsta kosti einu sinni á dag. Auk þess er æskilegt að bursta eða skola þær og munninn eftir máltíðir eftir því sem við verður komið.

Ekki mjög heitt vatn
Mjög heitt eða sjóðandi vatn má ekki nota við hreinsun gervitanna því þá verpast þær. Gervitennur eru brothættar. Því er heillaráð að bursta þær í vaski hálffylltum af vatni og halda tönnunum rétt yfir vatnsborðinu. Burstunin þarf að vera rækileg. Vanda ber sérstaklega til hreinsunar á innra borði gervigómanna. Burstið einnig með mjúkum tannbursta slímhúð góma og tungu.

Þar til gerð hreinsiefni

Í lyfjabúðum fást hreinsiefni fyrir gervitennur, venjulega sem duft eða töflur. Þau efni sem innihalda klór eru of sterk, geta meðal annars valdið upplitun á gómefninu. Þá mega upplausnar- og hreinsiefni svo sem spritt, aceton, eter, brintyfirilti og klóroform hvergi koma nærri gervitönnum, þau eyðileggja yfirborð þeirra. Þynnt borðedik, (þ.e. ein matskeið í glas af vatni) má nota til þess að leysa tannstein sem stundum sest á gervitennur. Þetta skal þó ekki framkvæma oftar en mánaðarlega. Áhöld úr málmi má ekki nota við hreinsun gervitanna, þau rispa gervigóminn.

Tannplantar
Staðreynd er að sumu fólki gengur illa að venjast gervitönnum hversu góðar þær eru. Þetta á sérstaklega við um gervitennur í neðri góm. Gómhryggir eru oft mjög rýrir hjá eldra fólki, sem kanske hefur mist sínar eigin tennur á ungum aldri og er þvó orðið lítið hald fyrir gervitennurnar. Nú er mögulegt að græða festistólpa , svonefnda tannplanta, í gómhrygginn. Smellum er komið fyrir í plantanum og gervitönnunum og og þar með er komin mjög góð festa. Fyrir viðkomandi er þetta oft á tíðum gjörbreyting til hins betra.