Fullorðnir

Tannvernd fyrir barnshafandi konur

 
Tennur barnsins byrja að myndast á fimmtu og sjöttu viku meðgöngu. Fosfór, kalk og önnur steinefni eru nauðsynleg vexti fósturs. Þau berast frá móður til fósturs með öðrum næringarefnum. Kalkþörfum fósturs er því mætt með fæðuvali móðurinnar. Fóstur dregur ekki kalk úr tönnum móður, og hún missir ekki tönn fyrir hvert barn sem hún gengur með eins og haldið var hér áður fyrr.
Tennur móður
Í munni okkar allra er fjöldi gerla og sýkla sem límast á tennurnar og mynda skán, sk. tannsýklu. Tannsýkla veldur tannskemmdum og tannholdsbólgum, jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Tennur skemmast þegar gerlarnir í tannsýklunni breyta sykrinum í fæðunni í sýru. Tíð sykurneysla veldur þannig tannskemmdum. Matarvenjur breytast stundum á meðgöngutíma. Ógleði getur leitt til tíðra aukabita og sumar konur fá sterka löngun í sætindi. Vandið því fæðuvalið og reynið eftir megni að komast hjá bitum milli mála.

Tannholdsbólgur
Tannholdsbólgur eru algengur fylgikvilli meðgöngu. Hormónabreytingar slæva viðnám tannholdsins þannig að þunguðum konum verður hættara við tannholdsbólgum. Því er sérstök ástæða til aukinnar tannhirðu á meðgöngutímanum.

Tannlæknir
Ráðlegt er að fá tíma hjá tannlækni þegar vissa er fengin um þungun, séu meira en sex mánuðir liðnir frá síðustu heimsókn. Skynsamlegt er að fara með barnið til tannlæknis áður en það verður tveggja ára eða að minnsta kosti áður en allar tuttugu barnatennurnar hafa komið upp. Því fyrr sem þú ferð, þeim mun betri möguleika hefur tannlæknirinn þinn á því að veita nauðsynlega fræðslu um tannvernd barnsins og koma þannig í veg fyrir óþarfa vandamál.

Sjá ennfremur Börn með sérþarfir á brjósti eftir Katrínu Eddu Magnúsdóttur, ljósmóður, á Doktor.is.