Fullorðnir

Ráðleggingar um brjóstagjöf og tannvernd

 Að gefnu tilefni vill Embætti landlæknis vekja athygli á því að ráðleggingar embættisins varðandi brjóstagjöf hafa ekki breyst á síðustu árum. Móðurmjólkin er besta næring sem völ er á fyrir ungbarn og brjóstamjólk eingöngu fyrstu sex mánuðina inniheldur öll þau næringarefni sem barnið þarf á að halda sér til vaxtar og þroska.
 
Mælt er með því að brjóstamólk sé hluti fæðunnar allt fyrsta árið og jafnvel lengur. Þeim börnum sem hafa fengið þurrmjólk á fyrstu mánuðunum má smám saman fara að gefa stoðmjólk í staðinn frá sex mánaða aldri.
 
Næturgjafir
Í kjölfar tanntöku er æskilegt að draga úr næturgjöfum, sérstaklega hjá börnum sem nærast á þurrmjólk með pela og gefa þeim í staðinn vatn að drekka á nóttunni.
 
Næturgjafir eru brjóstabarni mikilvægar, sérstaklega fyrstu sex mánuðina og jafnvel lengur. Hafa ber í huga að ef barnið sofnar út frá brjóstagjöf á kvöldin er mikilvægt að bursta tennurnar vel áður og þar sem skán myndast á tönnum við næturgjafir er mælt með tannburstun strax að morgni.
 
Tannburstun er mikilvæg
Börn sem eru komin með tennur og farin að borða kolvetni á daginn fá skán á tannyfirborð sem getur valdið tannskemmdum. Bursta þarf tennurnar tvisvar sinnum á dag með 0,1% flúortannkremi frá því fyrsta tönnin er sýnileg. Magn tannkrems samsvarar ¼ af nögl litlafingurs á barni yngra en 3 ára.
 
Ekki er ráðlagt að gefa barni ávaxtasafa eða sætt te í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykur skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. Gott er að venja 6 mánaða börn við stútkönnu og 12–18 mánaða börn af pela.
 
Brjóstamjólk hefur ekki glerungseyðandi áhrif og inniheldur efnasambönd sem geta dregið úr virkni baktería. Hafa ber í huga að munnvatnsframleiðsla er í lágmarki að nóttu til sem eykur hættu á tannskemmdum ef aðgát er ekki höfð varðandi tannhirðu.
 
Geir Gunnlaugsson landlæknir
Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir
Hólmfríður Þorgeirsdóttir næringarfræðingur.