Fullorðnir
Tannréttingar
Tannréttingar
Á þriðja aldursári eru allar barnatennur yfirleitt komnar fram og þá ætti barnið að vera farið að kynnast tannlækninum sínum. Tannlæknirinn lítur eftir öllu viðkomandi tönnum, þar á meðal tann- og bitskekkju, og vísbendingum um þörf fyrir tannréttingu. Tannréttingasérfræðingar eru tannlæknar sem hafa lokið að minnsta kosti þriggja ára framhaldsnámi í tannréttingum og því leita aðrir tannlæknar oftast til þeirra þegar tannskekkja uppgötvast. Tilvísun er þó ekki nauðsynleg og geta foreldrar leitað beint til tannréttingasérfræðinga hvenær sem er.
Í hugum flestra eru unglingsárin sá tími sem tengist tannréttingu með spöngum eða svokölluðum föstum tækjum. Mörg vandamál er þó auðvelt að leysa fyrr, sérstaklega getur verið áhrifaríkt að grípa inn í þegar fyrstu fullorðinstennurnar eru að koma fram við 6 til 8 ára aldur.
Hver er tilgangur meðferðar á tannskiptaaldri?
Hver er tilgangur meðferðar á tannskiptaaldri?
- Að skapa hagstæðari skilyrði fyrir eðlileg tannskipti og kjálkavöxt.
- Að koma í veg fyrir grófar tann- og bitskekkjur, þvingunarbit og andlitsskekkjur.
- Að draga úr framstæði framtanna til að minnka hættu á áverkum, t.d. brotnum framtönnum.
- Að stöðva óæskilega ávana, s.s. fingursog og tunguþrýsting.
- Að draga úr vandamálum við tal og öndun.
- Að viðhalda tannbilum fyrir undirliggjandi fullorðinstennur ef barnatennur hafa tapast ótímabært.
- Að draga úr líkum á stríðni vegna tannskekkju.
Tannréttingar á unglingsaldri
Flestar tann- og bitskekkjur eru leiðréttar þegar tannskiptum er lokið eða um 10-15 ára aldurinn. Í sumum tilvikum getur þurft að bíða þar til vexti er að mestu lokið. Mikilvægt er að tannréttingasérfræðingurinn sé hafður tímanlega með í ráðum til að hægt sé að tímasetja aðgerðir þannig að þær verði eins markvissar og einfaldar og mögulegt er.
Ýmsar ástæður geta verið fyrir tannréttingameðferð.
- Mikið yfirbit og framstæðar tennur.
- Opið bit á framtanna- eða jaxlasvæði.
- Meðfædd tannvöntun einnar eða fleiri tanna
- Skarð í vör, tanngarði og/eða gómi.
- Krossbit, saxbit og önnur bitskekkja.
- Djúpt bit þar sem framtennur í neðri kjálka bíta upp í góm fyrir aftan efri framtennur.
- Mikil þrengsli á framtannasvæði.
- Óeðlilegri legu fullorðinstanna sem hindrar að þær komi fram.