Fullorðnir

Rótfyllingar.

Er rótfylling sársaukafull?
Nei, og ekki er alltaf nauðsynlegt að beita deyfingu fyrir meðferð. Hins vegar kjósa margir undantekningalaust að láta deyfa sig. Við það dofnar tönnin. Stundum er þó erfitt að deyfa tennur sem í er mikil bólga.

Hvernig er rótfylling framkvæmd?
Vefirnir innan í rótargöngunum eru fjarlægðir og rótargöngin formuð til. Rótfyllingarefninu er síðan komið í rótargöngin þegar þau hafa verið fullhreinsuð.

Hversu langan tíma tekur rótfylling?
Algengast er að sjúklingur þurfi að koma í tvö til þrjú skipti til meðferðar hjá tannlækni. Erfið tilfelli krefjast þó fleiri heimsókna.

Hvað kostar rótfylling?
Það fer eftir meðferðinni; því hversu erfitt er að rótfylla viðkomandi tönn. Jaxlar eru dýrari en framtennur vegna þess að þeir eru með fleiri rótargöng sem erfiðara er að hreinsa.

Hve lengi endist rótfyllta tönnin?
Þótt rótfylltar tennur geti verið stökkar, þá endast þær eins og aðrar tennur sé tryggilega gert við þær, til dæmis með krónugerð.

Hver er munurinn á rótfyllingu og venjulegri fyllingu í tönn?
Rótfylling er sett ofan í rótargöngin. Fylling eða króna er sett í eða á tannkrónuna en oftast er skipt um fyllingu í tönninni nokkrum sinnum eða krónur endurnýjaðar. Rótfylling þarf aftur á móti helst að duga líftíma tannarinnar. Í sumum tilfellum er þó nauðsynlegt að endurrótfylla tönn hverfi sýking ekki við fyrstu meðferð.

Hverjar eru batahorfur eftir rótfyllingu?
Batahorfur eru venjulega um 80-90%. Þetta er svolítið mismunandi eftir tilfellum. Hverfi sýking ekki er mögulegt að endurmeðhöndla tönnina eða gera rótarendaaðgerð á henni.

Hvernig er líðan eftir meðferð?
Oftast nær minnkar sá verkur eða hverfur sem verið hefur fyrir. Þó getur verið nauðsynlegt að taka væg verkjalyf í einn til tvo daga eftir heimsókn. Ef bólga myndast eða mikill verkur er ráðlegt að hafa strax samband við viðkomandi tannlækni.

Dökknar tönnin eftir rótfyllingu?
Yfirleitt dökkna tennur ekki eftir rótfyllingu hafi hreinsun rótarganganna gengið að óskum. Þetta getur þó gerst. Þá er mjög oft unnt að lýsa tönnina. Sé það ekki hægt þarf að setja krónu á tönnina.

Hvernig er tilfinning í tönn sem hefur verið rótarfyllt?
Þú átt ekki að hafa óþægindi í tönninni til frambúðar. Gerist það er það merki um að eitthvað sé að. Hafðu þá samband við tannlækninn þinn. Tönnin er ekki dauð eftir rótfyllingu. Rótaryfirborðið nærist frá vefjunum umhverfis tönnina.

Er meðferð lokið strax eftir rótarfyllingu?
Nei, mjög áríðandi er að setja fyllingu í eða krónu á tönnina eftir meðferð. Bráðabirgðarfyllingin sem yfirleitt er sett í eftir rótfyllingu molnar niður og rótargöngin geta sýkst aftur.

Hef ég einhverja aðra kosti en að láta rótfylla tönnina?
Þú getur látið draga tönnina úr. Þá þarf oftast að setja brú, tannplanta eða part í staðinn. Slíkar aðgerðir eru mun síðri en rótarfylling og eru auk þess allmiklu dýrari.

Er að vænta einhverra sérstakra erfiðleika í meðferðinni?
Oft eru rótargöng bogin, kölkuð eða erfðleikum bundið að komast fyrir sýkingu. Í slíkum tilfellum þarf oft að senda sjúkling til rótfyllingarsérfræðings.

Hvað er rótarendaaðgerð?
Rótarendaaðgerð er oftast framkvæmd þegar ekki tekst að ráða við sýkingu með venjulegum ráðum. Hún er yfirleitt fremur lítil aðgerð sem gerð er í staðdeyfingu. Opnað er inn á rótarendann, sýktur vefur fjarlægður og fyllingu komið fyrir í enda rótar. Eftirköst eru yfirleitt lítil eða engin.